föstudagur, 13. desember 2013

Bananabrauð

Þetta er eitt það einfaldasta sem hægt er að búa til. Ég fann uppskriftina af þessu brauði fyrir mörgum árum en hef breytt henni lítillega frá upphaflegu útgáfunni. Ég hef bakað þetta með 6 ára nemendum mínum sem segir allt um erfiðleikastigið :) Þetta staldrar ekki lengi við enda best ylvolgt með sméri.

Bananabrauð.
3 stórir
bananar, stappaðir í mauk
5 dl hveiti eða spelt
1 dl sykur
1 dl púðursykur
1 tsk matarsódi
1 tsk lyftiduft
1/2 tsk salt
1 tsk vanillusykur
1 egg


  • Hrærið öllu saman í skál, ekki er nauðsynlegt að nota hrærivél.
  • Setjið í vel smurt brauðform, 1 stórt eða 2 minni.
  • Bakið við 180°C í u.þ.b 50 mínútur stórt form eða í 30-40 mínútur minni. Stingið prjóni í til að kanna hvort brauðið sé bakað í gegn.
Góðar stundir.

Kjúklingatortilla í ofni-mexíkópizza.

Hér á bæ er mexíkóskur snakkmatur vinsæll, sérstaklega í lok vikunnar. Ef heimasætan mætti ráða væri hann á borðum annan hvern dag og toppar nánast pizzuna hjá henni. Oftast vefjum við öllu inn í pönnukökurnar, hakki eða kjúklingabitum með grænmeti, salsasósu og flögum eins og gengur og gerist.  Hér kemur aðeins önnur útfærsla með sama hráefni, köllum það bara mexíkópizzu.
-Ingibjörg.

Mexíkópizza

4 litlar tortillakökur settar á ofnplötu
1 msk hreinn rjómaostur á hverja köku
1 msk kryddrjómaostur á hverja köku

  • Smyrjið á kökurnar

2 msk mild salsasósa á hverja köku

  • Smyrjið yfir rjómaostinn

2 kjúklingabringur
1 msk olía
2 tsk mexíkósk kryddblanda

  • Skerið í litla bita, steikið á pönnu og kryddið.
  • Setjið á pönnukökurnar og stráið rifnum osti of muldum flögum yfir.
  • Bakið í ofni við 200°C í 10-12 mínútur eða þar til osturinn hefur tekið lit.
  • Berið fram með fersku grænmeti og Doritos (okkur finnst svarta best )með salsasósu.

Einfalt og fljótlegt - góðar stundir.

sunnudagur, 29. september 2013

Snúðadagur

Hér á bæ varð laugardagurinn að snúðadeiginum mikla.  Sóley og Helena vinkona hennar hófust handa við baksturinn og framreiddu gómsæta ostasnúða með smá pizzuívafi. Ég ákvað að fara í snúðakökugerð þar sem snúðarnir eru settir í form með vanillukremi. Mér finnst skemmtilegt að fást við gerbakstur, hann tekur smá tíma og gott að gera stórar uppskriftir og frysta. Hvort sem það eru bollur, snúðar, horn eða eitthvað annað þá þarf ekki annað en að hita smá stund í ofninum og bakkelsið verður eins og nýbakað.
- Ingibjörg.

Grunndeig - hægt að nota í allskonar snúða, horn og bollur

10 dl hveiti
1/2 dl sykur
1/2  tsk salt
75 g smjör
3 3/4 dl volg mjólk
3 1/2 tsk þurrger

  1. Blandið þurrefnunum saman í skál.
  2. Myljið smjörið saman við þurrefnin með fingrunum eða látið hnoðarann í hrærivélinni vinna verkið.
  3. Velgið mjólkina og leysið gerið upp í henni.
  4. Hellið vökvanum saman við þurrefnin og hrærið saman.
  5. Hnoðið á borði þar til deigið er slétt og sprungulaust, bætið við hveiti eftir þörfum.
  6. Látið deigið lyfta sér á hlýjum stað í u.þ.b. 30 mínútur.



Ostasnúðar

  1. Fletjið deigið út í aflanga köku, u.þ.b 50x25 sentimetra.
  2. Blandið saman í skál 1/2 öskju af pizzasmurosti og 1/2 öskju af rjómaosti ásamt 1 tsk af góðu pizzakryddi.
  3. Smyrjið ostablöndunni á deigið og smyrjið smá pizzasósu þar ofan á. Setjið rifinn ost eftir smekk.
  4. Vefið upp í lengju og skerið í sneiðar, hægt er að fá u.þ.b 25 snúða.
  5. Látið snúðana lyfta sér á plötunni í 10-15 mínútur.
  6. Raðið á plötu og bakið við 180-190 °C í 15 mínútur.

Snúðakaka með vanillukremi

Vanillukrem

1 eggjarauða
2 msk hveiti
3 msk sykur
1 1/2 dl mjólk
1/2 tsk vanilludropar
salt á hnífsoddi

Setjið allt nema vanilludropana og saltið í pott og hitið þar til fer að þykkna. Hrærið í allan tímann með pískara. Takið af hitanum þegar kremið er orðið þykkt og bætið vanillu og salti saman við. Kælið.

  1. Takið 1/3 af deiginu, fletjið út og setjið í smurt form eða setjið bökunarpappír í botninn - ég notaði form sem er 40x25 sentimetrar.
  2. Jafnið vanillukreminu á deigið í mótinu.
  3. Fletjið hinn hlutann af deigunu út u.þ.b. 50x25 sentimetra, smyrjið með bræddu smjöri og stráið kanilsykri og söxuðu súkkulaði yfir.
  4. Vefjið upp í lengju og skerið í sneiðar.
  5. Raðið sneiðunum á kremið í mótinu.
  6. Látið kökuna lyfta sér í mótinu í 10-15 mínútur.
  7. Bakið við 180°C í u.þ.b. 30 mínútur.


Góðar stundir!

laugardagur, 7. september 2013

Vanillukaka með hindberjasultu

Þessi varð til við tilraunamennsku á laugardagsmorgni. Stundum hellist yfir mig að gera eitthvað til að eiga með kaffinu, svona ef einhver skyldi nú detta inn :) Viti menn! Ég fékk góða vinkonu óvænt í kaffi og hún gaf tilrauninni ágætiseinkunn sem og heimilisfólkið. Alveg fínasta kaka á vindasömum laugardegi.
 - Ingibjörg.


Kökudeigið:
160 g mjúkt smjör
2 dl sykur
3 egg
2 1/2 dl spelt
eða hveiti
2 tsk lyftiduft
örlítið salt

  • Þeytið smjör og sykur vel saman.
  • Bætið eggjum saman við, einu í einu og hrærið vel á milli.
  • Hrærið þurrefnunum saman við.


Vanillukrem:
2 msk hveiti
2 msk sykur
2 dl mjólk
1 eggjarauða
1 1/2 tsk vanillusykur
örlítið salt

  • Setjið allt nema vanillusykur og salt í pott, látið suðu koma upp og hrærið stöðugt í með sósuþeytara.  Þegar blandan þykknar er potturinn tekinn af hellunni og vanillu og salti bætt í. Kælið.


  • Setjið helminginn af kökudeiginu í smurt kökuform (ég notaði gamaldags 26 cm form með sveif í botninum, mjög gott að losa kökur úr þannig formi :) )
  • Smyrjið hindberjasultu (eða sultu/ávöxtum að eigin vali) á deigið, dreifið vanillukreminu jafnt yfir sultuna og að lokum restinni af kökudeiginu.
  • Bakið í u.þ.b 30 mínútur við 180-190°C.


  • Kælið kökuna í 10-15 mínútur í forminu, hvolfið henni síðan á grind eða bakka og kælið aðeins áfram áður en hún er sett á disk.
  • Ís eða rjómi með þessari klikkar ekki. 

Hafið það huggulegt í hauströkkrinu.

sunnudagur, 1. september 2013

Ávaxtasalat með vanillusósu

Mig langar að deila með ykkur uppskrift sem er í miklu uppáhaldi hjá mér og vinkonum mínum. 
Við búum þetta oft til þegar við erum saman og notum ýmsar tegundir af ávöxtum. Í þessa uppskrift er hægt að nota hvaða ávexti sem er og vanillusósan sem borin er með gerir þetta að himneskum eftirrétti.
- Sóley


Vanillusósa

2 1/2 dl. rjómi

2 eggjarauður
2 msk sykur
2 tsk vanilludropar/vanillusykur


Aðferð:

  1. Léttþeytið rjómann og geymið til hliðar.
  2. Setjið eggjarauður, sykur og vanilludropa/vanillusykur í aðra skál og þeytið saman í nokkrar mínútur.
  3. Blandið eggjahrærunni varlega saman við rjómann.
  4. Beriið fram með ávaxtasalati t.d. epli, bananar, vínber og jarðarber.

Njótið! 

sunnudagur, 18. ágúst 2013

Ofnbökuð eggjakaka og múslíbitar með kaffinu

Það er gott að geta notað hráefni sem til er í ísskápnum í allskonar tilraunir þó ekki sé eiginleg uppskrift til að fara eftir. Margar uppskriftir eru þeim eiginleikum gæddar að hægt er að nota þær sem grunna sem hægt er að breyta, bæta og aðlaga, allt eftir efnum og aðstæðum. Eggjakakan hér er saman sett úr því sem til var í mínum ísskáp á þeirri stundu en hver og einn getur gert sína útfærslu með ýmsu grænmeti og öðru skemmtilegu. Ég læt svo fylgja uppskrift af múslíbitum sem eru fínir með kaffinu og kertaljósinu í haust.
 - Ingibjörg. 

Ofnbökuð eggjakaka

5 stór egg
1/2 lítil dós kotasæla
1 dl rifinn ostur
  • Þeytið saman í smá stund.

nokkrar sneiðar beikon
smá biti púrrulaukur
brokkolí
4 tómatar, 2 rauðir og 2 grænir
salt og svartur pipar
  • Skerið beikonið og grænmetið í bita og léttsteikið á pönnu í nokkrar mínútur. Byrjið á beikoninu og látið það brúnast aðeins og bætið síðan hinu við.
  • Setjið beikonið og grænmetið í smurt eldfast mót og hellið eggjahrærunni yfir.
  • Bakið við 180 - 190 °C í 25 - 30 mínútur.
  • Berið fram með góðu brauði og salati.


Múslíbitar

200 g suðusúkkulaði, 56%
4 msk agavesíróp
3 msk kókosolía
  • Bræðið saman í potti við vægan hita.

4 - 5 dl múslí
  • Hrærið saman við súkkulaðiblönduna, setjið í form og sléttið úr blöndunni, gott er að setja bökunarpappír í botninn.
  • Frystið í klukkutíma.
  • Skerið í bita.

Það er gott að geyma bitana í frysti í góðu íláti og næla sér í eftir hendinni.

Góðar stundir í hauströkkrinu.




laugardagur, 27. júlí 2013

Skonsur og döðlubrauð í ferðalagið

Hluti af fjölskyldunni fór með góðu fólki í Þórsmörk í brakandi blíðu á dögunum. Á leið okkar þangað fórum við smá útúrdúr og áðum í grænni lautu við Tumastaði í Fljótshlíð og nutum veðurblíðunnar og náttúrunnar. Í nestiskörfunni var dásamlegt döðlubrauð eftir uppskrift sem ég fékk frá mömmu fyrir langa löngu og heimsins bestu skonsur sem ættaðar eru frá góðri vinkonu. Þetta eru margreyndar og skotheldar uppskriftir og hægt að breyta þeim í hollustuátt með spelti, heilhveiti og hrásykri. Áleggið er ekki flókið á svona bakkelsi, smjör og kannski ostur er fullkomið!
 - Ingibjörg.


Skonsur

7 1/2 dl hveiti
2 1/2 dl sykur
3 tsk lyftiduft
7 1/2 dl mjólk
2 eggjarauður

  • Hrærið öllu saman.

2 eggjahvítur, stífþeyttar og blandaðar varlega saman við með sleikju.

  • Bakið á pönnukökupönnu við frekar vægan hita og snúið þegar yfirborðið er orðið nokkuð þurrt. Gott er að setja örlítið smjör eða olíu á pönnuna nokkrum sinnum á meðan á bakstri stendur. 



Döðlubrauð

1/2 lítri vatn
50 g smjör
250 g steinlausar döðlur

  • Hitið allt saman í potti og stappið dölurnar í vökvanum, t.d. með kartöflupressu.

500 g hveiti
300 g sykur
2 tsk matarsódi
1 tsk lyftiduft
2 egg
1/2 tsk vanillusykur

  • Hrærið öllu saman ásamt döðluvökvanum.
  • Setjið í 2 - 3 vel smurð brauðform, hafið formin fyllt að 2/3 hluta.
  • Bakið við 175°C í u.þ.b. klukkustund og stingið prjóni í til að athuga hvort brauðið er fullbakað.


 Eigið góðar og ljúfar stundir!



sunnudagur, 7. júlí 2013

Skötuselur á planka! Dásemdin ein!

Ekki alls fyrir löngu sá ég grillþátt í sjónvarpinu þar sem grillað
var á planka. Þetta kom vel út í þættinum, aðferðin dásömuð af þeim sem kynntu plankann góða og mér fannst þetta bráðmerkilegt. Ég ákvað að þetta yrði prófað hér. Fjárfest var í viðnum og góðum vinum boðið í tilraunamálsverð. Skemmst er frá að segja að allt saman stóðst væntingar. Fiskurinn var einstaklega safaríkur og bæði við og gestirnir voru himinlifandi með matinn. Hér á eftir er smá lýsing á því hvernig ég útbjó fiskinn á plankann en að sjálfsögðu má nota hvaða hráefni sem er og prófa sig áfram. Okkur fannst þetta skemmtileg tilbreyting í grillmenninguna.
- Ingibjörg.-



Plattinn góði er látinn liggja í bleyti í a.m.k klukkutíma áður en hráefnið er settur á hann og svo fer hann strax á grillið. Grillið þarf að forhita.

Beikonvafinn skötuselur.

Ég skipti fiskinum í sex steikur og penslaði með olíu. Kryddið í þetta sinn var sítrónupipar og Best á fiskinn og lét ég þetta liggja óáreitt í klukkutíma. Beikoninu er vafið utan um fiskinn þannig að það hylji hann nokkurn vegin. Svo er þessu bara raðað að plankann og hann settur á grillið sem er í 150°C. Tíminn í þessu tilfelli var 23 mínútur.

Meðlætið að þessu sinni : 

 Ofnbakaðir kartöfluhelmingar, penslaðir með olíu og kryddaðir með himalayjasalti og rósmarín, bakaðir við 190 °C í 30-40 mínútur, eða þar til þær eru gullinbrúnar.
Salat úr Lambhagasalati, mangó og gúrku.
Sósan var nokkuð hefðbundin rjómasveppasósa, steiktir sveppir, rjómi eða matreiðslurjómi og krydduð með salti og pipar og smökkuð til með andakrafti og hunangi.





Ég hvet ykkur til að prófa svona planka, það er alltaf gaman að gera tilraunir!




sunnudagur, 23. júní 2013

Rabbarbarabrjálæði.


Ég var svo heppin að fá þó nokkuð af rabbarbara og ákvað að nýta hann í allskonar tilraunastarfsemi. Ég bjó til síróp sem hægt er nota á ýmsan máta, múffur og aðeins öðruvísi sultu. Þessu var bara vel tekið í kotinu og nú vona ég bara að það komi aftur rabbarbari í hús með haustinu í fekari tilraunir!
 - Ingibjörg.


Rabbarbarasíróp.

750 g rabbarbari
3 dl vatn


  • Sjóðið saman í 10-15 mínútur og síið í nokkrar klukkustundir í gegn um grisju. Úr þessu kom 1/2 lítri af saft.
  • Setjið saftina í pott og bætið við 450 g sykur, 2 tsk sítrónusafa og 1 vanillustöng.
  • Sjóðið saman í 15 mínútur, kælið í pottinum í smástund og setjið á krukkur.


Þetta síróp er hægt að nota á pönnukökur og vöfflur, út á ís og sem smá bragð í kalda drykki, t.d. sódavatn.


Rabbarbara - og eplamúffur.

2 egg
2 dl hrásykur
4 dl fínt spelt
2 1/2 tsk lyftiduft
1/2 tsk vanillusykur
90 g brætt smjör
1 dl mjólk
2-3 dl rabbarbari, gott er að sjóða hann aðeins til að mykja hann, ég notaði það sem gekk af saftinni við sírópsgerðina
1 epli, skrælt og smátt saxað
kanilsykur


  • Þeytið egg og sykur létt og ljóst.
  • Blandið öðru saman við og hrærið saman, ekki of lengi svo þær verði ekki seigar.
  • Setið deigið í muffinsmót (passar í 30-35 stk) stráið smá kanilsykri yfir hverja köku og bakið í 15-18 mínútur við 200°C.

Þetta deig er líka hægt að setja í bökumót og baka í 20 -25 mínútur og bera fram með rjóma eða ís!

Rabbarbarasulta með jarðaberjum og kanilkeim.

600 g rabbarbari
300 g frosin jarðarber
500 g sykur
1 lime, safi og rifinn börkur
2 kanilstangir, settar út í síðustu 10 mínúturnar af suðutímanum


  • Setjið allt saman í pott og sjóðið saman í 20-30 mínútur eða þar til allt er vel maukað og þykkt.
  • Kælið aðeins í pottinum og setjið á krukkur.



Amerískar pönukökur.

Ég ætla að láta hér fylgja með uppskrift af amerískum pönnukökum og hvet ykkur til að nota rabbarbarasírópið með þeim.

4 dl spelt eða hveiti
1 tsk lyftiduft
1/2 tsk matarsódi
1/2 tsk salt
1 tsk vanillusykur
2 egg
2 1/2 - 3 dl mjólk
25 g brætt smjör


  • Blandið þurrefnunum saman í skál.
  • Setjið egg og mjólk í aðra skál, þeytið því saman og hellið síðan saman við þurrefnin og þeytið vel.
  • Hellið bræddu smjörlíkinu saman við í lokin og blandið saman.
  • Bakið á pönnu við miðlungshita þar til þær eru gullinbrúnar.


Njótum alls þess er sumarið gefur okkur!

mánudagur, 17. júní 2013

Döðluterta með piparmynturjóma

Það er alveg komin tími á eins og eina Hnallþóru og að bjóða góðu fólki í kaffi og köku ekki satt? 17. júní er tilvalinn dagur til þess en hinir 364 eru líka afbragðs tertudagar! Þessa uppskrift átti ég til handskrifaða í einni af mínum gömlu uppskriftastílabókum og hef ég ekki hugmynd hvaðan hún upphaflega kemur. Hún hefur verið óspart notuð við ýmis tækifæri.
- Ingibjörg

Botnar:

4 egg
2 1/2 dl sykur
70 g smjör

  • Hrærið saman í nokkrar mínútur þar til blandan er létt og ljós.

2 1/2 dl kókosmjöl
2 1/2 dl hveiti
1/2 tsk lyftiduft
2 1/2 dl saxaðar döðlur
100 g saxað suðusúkkulaði

  • Blandið öllum þurrefnunum vel  saman í skál og bætið síðan út í eggjahræruna, hrærið þar til allt er vel blandað. Deilið deiginu í 2 vel smurð og hveitistráð 24 cm form og bakið í 20 -25 mínútur við 180°C. Kælið vel.

Leggið botnana saman með 1 pela af þeyttum rjóma, 100 g söxuðu Pipp, 1 tsk vanillusykri og ávöxtum,  t.d perum eða jarðaberjum. Ef notaðir eru niðursoðnir ávextir er tilvalið að bleyta aðeins í botnunum með safanum.


Krem ofan á:

2 eggjarauður
2-3 msk flórsykur
50 g brætt suðusúkkulaði
1 peli rjómi, þeytur

  • Þeytið eggjarauður og flórsykur saman í smá stund.
  • Bætið bræddu súkkulaði saman við og þeytið aðeins áfram.
  • Blandið þeytta rjómanum rólega saman við með sleikju.

Setjið ofan á kökuna og skreytið með ávöxtum.
Kakan er best ef sett er á hana með góðum fyrirvara.



laugardagur, 15. júní 2013

Ofnbakaður lax með sætu salsa

Nú er sumarið vonandi komið og ég fann hjá mér þörf fyrir að "hanna" eitthvað litríkt á diskinn. Bleiki fiskurinn er alltaf vinnsæll hjá mínu fólki og að þessu sinni gerði ég litríkt salsa og kalda sósu með honum.
-Ingibjörg

Kryddlögur á 1 laxaflak, u.þ.b. 700-800 g (fyrir fjóra)

2 msk olía
2 msk Sweet chili sósa
2 msk soja sósa

Penslið flakið og látið liggja í 1-2 klukkustundir fyrir matreiðslu.
Stráið söxuðum pecanhnetum og örlitlu maldon- eða himalayasalti yfir fiskinn rétt áður en hann fer í ofninn.
Bakið við 190-200 °C í 12-15 mínútir, fer samt eftir þykkt.

Að sjálsögðu er ekki verra að grilla fiskinn :)

Sætt salsa

1/2 mangó
1/2 rauð paprika
biti af ferskum ananas
1/4 rauðlaukur
nokkrir stilkar af graslauk
safi úr 1/2 lime
örítið salt og pipar

Saxið allt mjög smátt eða setjið í matvinnsluvél í örlitla stund. Geymið í kæli í 1/2-1 klukkustund.

Köld sósa

1 dós sýrður rjómi
1-2 hvítlauksrif, pressuð
1 msk hunang
fersk basilíka og graslaukur eftir smekk

Hrærið öllu saman og geymið í kæli í smá stund.

Berið fram með ofnbökuðum eða grilluðum kartöflum og góðu salati.

Njótið sumarsins!

sunnudagur, 2. júní 2013

Ítalskar kjötbollur


Kjötbollur geta að mínu mati verið hvort sem er hversdags eða helgarmatur og eru bara nokkuð vinsælar hér á þessu heimili. Hér er notast við gamlan og góðan grunn af partýbollum sem er poppaður upp með kryddi og parmesanosti.
Fyrirtaks sunnudagsmáltíð.
- Ingibjörg.

Kjötbollur

500 g nautahakk
75 g mulið ritzkex
2 msk lauksúpuduft
1 egg
3 msk rifinn parmesanostur
3 tsk oregano eða ítölsk kryddblanda
1/2 tsk svartur pipar

Blandið öllu saman í skál og hrærið saman þar til þetta er orðið að samfelldu deigi.
Mótið litlar bollur og raðið í eldfast mót.
Bakið í ofni við 180°C í 10-15 mínútur.

Sósa

1 laukur, smátt saxaður
2-3 hvítlauksrif, pressuð
1/2 rauð paprika smátt skorin
8 ferski tómatar, skornir í bita
1 tsk oregano
1 tsk grænmetiskraftur
1 tsk nautakraftur
1 tsk ítölsk hvítlauksblanda (Pottagaldrar)
salt og pipar eftir smekk
2 litlar dósir tómatmauk
1 tsk hlynsýróp

Mýkið lauk og papriku í olíu á vel heitri pönnu í smá stund.
Bætið tómötum út í og látið malla á meðan kryddið er sett út í.
Bætið tómatmaukinu saman við ásamt hlýnsýrópinu, hrærið vel saman og leyfið þessu að malla undir loki í 10 mínútur.

Setjið steiktu kjötbollurnar út í sósuna og leyfið þessu að malla saman við vægan hita
í nokkrar mínútur.

Berið fram með pasta, grænu salati og rifnum parmesanosti.

Verði ykkur að góðu!



sunnudagur, 26. maí 2013

Súkkulaðimúffur

Ég er svo heppin að eiga 3 matreiðslubækur sem mér finnst gaman að kíkja í. Mér finnst mjög gaman að baka múffur og skreyta þær með alls konar kremi og skrauti. Hér er ein uppskrift sem ég valdi úr Stóru köku- og brauðbókinni frá Disney.
 - Sóley.

300 g hveiti
30 g kakó
2 tsk lyftiduft
2 egg
200 g sykur
140 g smjör, brætt og kælt
1/2 tsk vanilludropar
1 dós (um 180 g) sýrður rjómi
70 - 100 g dökkt piparmyntusúkkulaði

Smjörkrem

300 g smjör
500 g flórsykur
1/2 - 1 tsk piparmyntudropar
4 tsk heitt vatn (soðið)


Til skrautspiparmyntubrjóstsykur, mulinn


















Aðferð

1. Hitið ofninn í 180°C.
2. Sigtið hveiti, kakó og lyftiduft í skál.
3. Þeytið egg og sykur í hrærivél þar til blandan er létt og ljós.
4. Hrærið smjör og sýrðan rjóma saman og bætið blöndunni út í hrærivélaskálina.
5. Bætið þurrefnunum út í og blandið vel.
6. Fyllið pappírsmúffuform upp að 3/4 og setjið síðan í múffuformið.
7. Skiptið súkkulaðinu í jafn marag bita og múffurnar eru. Stingið einum einum bita vel ofan í hverja múffu.
8. Bakað í 18 - 22 mínútur eða þar til prjónn sem stungið er í múffuna kemur þurr út.
9. Kælið múffurnar alveg áður en kremið er sett á þær.
10. Þeytið saman smjör og flórsykur fyrir kremið.
11. Bætið piparmyntudropum og vatni saman við.
12. Þeytið þangað til að kremið er mjúkt og slétt.
13. Myljið brjóstsykurinn og stráið yfir kremið.

Þessi uppskrift gerir um 20 meðalstórar múffur.
Til tilbreytingar mætti setja litríkan glassúr ofan á múffurnar.


Verði þér að góðu

Vinkonuboð

Ég bauð 6 æskuvinkonum mínum í saumaklúbbnum í mat þar sem við lokuðum vetrinum með yndislegri samveru. Við kynntumst í Varmárskóla á áttunda áratugnum þegar enn voru sjónvarpslaus fimmtudagskvöld og okkur fannst tilvalið að nýta þau kvöld til hittings. Það er dýrmætt að eiga góðar vinkonur.
-Ingibjörg.

Ofnbakaðar svínalundir - fyrir 6-8

1,5 kg svínalundir í sneiðum
3 msk Dijon sinnep
3 msk hunang

Látið kjötið liggja í sinnepi og hunangi í 2-3 klukkustundir.
Snöggsteikið sneiðarnar, kryddið með salti og pipar og raðið í eldfast mót.

















2 box sveppir
4 hvítlauksrif
2 laukar
150 g döðlur
1 lítri matreiðslurjómi
1 gráðaostur
1 lítil askja rjómaostur með svörtum pipar
1 msk hunang
1-2 tsk Best á allt
smakkað til með kjötkrafti, ég notaði svína- og andakraft.

Saxið grænmetið smátt og steikið á pönnu, bætið öllu öðru við og látið malla við vægan hita þar til ostarnir er bráðnaðir.

















Hellið sósunni yfir kjötið í mótinu og bakið í ofni í 20 - 30 mínútur við 180°C.

Meðlætið var sæt kartöflumús, pönnusteiktar parísarkartöflur með paprikukryddi, grænt salat og fetaostur.



 Blaut súkkulaðikaka.

Grunnurinn að þessari kökur er uppskrift sem birtist í bæjarblaði hér í Mosfellsbænum fyrir nokkrum árum og er í miklu uppáhaldi á þessum bæ. Hér er hún með kremi og karamellukurli sem gerir hana að algerri súkkulaðisælu.

2 egg
2 dl sykur

Hrærið lauslega saman.

1 1/2 dl hveiti
3 msk kakó
1 msk vanillusykur
salt af hnífsoddi
1/2 tsk lyftiduft
125 g brætt smjör

Öllu bætt út í og hrært saman þar til smjörið er vel samlagað hrærunni.
Hellið í smurt kökuform og bakið í 30 mínútur við 150°C. Kakan á að vera frekar blaut.

Krem.

75 g suðusúkkulaði
3 msk hlynsíróp
3 msk rjómi
2 msk vatn

Bræðið saman í potti við vægan hita.

Setjið kökuna á disk, dreifið karamellukurli yfir og að lokum er kreminu jafnað yfir kökuna.
Kælið kökuna aðeins svo kremið stífni.
Berið fram með rjóma og t.d berjum.




Njótið!

fimmtudagur, 23. maí 2013

Fimmtudagsfiskur

1 ýsuflak, roðlaust og beinlaust í bitum
2 hvítlauksrif, smátt söxuð
1 laukur, smátt saxaður
nokkrir sveppir í sneiðum
smá biti af sætri kartöflu skorin í teninga
3 - 4 dl matreiðslurjómi
1 grænmetisteningur
1/2 - 1 tsk Best á allt
salt og pipar eftir smekk
olía til steikingar



Aðferð

1. Hitið olíuna og steikið grænmetið í smá stund.

2. Bætið rjómanum og kryddinu út á pönnuna og látið malla þar til kartöfluteningrnir eru næstum því tilbúnir.

3. Bætið ýsubitum út í sósuna og hitið þar til fiskurinn er hvítur í gegn.

Smakkið og bragðbætið með grænmetiskrafti ef þarf.

Gott er að bera fram með hrísgrjónum og salati.


Verði þér að góðu!