Þessi varð til við tilraunamennsku á laugardagsmorgni. Stundum hellist yfir mig að gera eitthvað til að eiga með kaffinu, svona ef einhver skyldi nú detta inn :) Viti menn! Ég fékk góða vinkonu óvænt í kaffi og hún gaf tilrauninni ágætiseinkunn sem og heimilisfólkið. Alveg fínasta kaka á vindasömum laugardegi.
- Ingibjörg.Kökudeigið:
160 g mjúkt smjör
2 dl sykur
3 egg
2 1/2 dl spelt
eða hveiti
2 tsk lyftiduft
örlítið salt
- Þeytið smjör og sykur vel saman.
- Bætið eggjum saman við, einu í einu og hrærið vel á milli.
- Hrærið þurrefnunum saman við.
Vanillukrem:
2 msk hveiti
2 msk sykur
2 dl mjólk
1 eggjarauða
1 1/2 tsk vanillusykur
örlítið salt
- Setjið allt nema vanillusykur og salt í pott, látið suðu koma upp og hrærið stöðugt í með sósuþeytara. Þegar blandan þykknar er potturinn tekinn af hellunni og vanillu og salti bætt í. Kælið.
- Setjið helminginn af kökudeiginu í smurt kökuform (ég notaði gamaldags 26 cm form með sveif í botninum, mjög gott að losa kökur úr þannig formi :) )
- Smyrjið hindberjasultu (eða sultu/ávöxtum að eigin vali) á deigið, dreifið vanillukreminu jafnt yfir sultuna og að lokum restinni af kökudeiginu.
- Bakið í u.þ.b 30 mínútur við 180-190°C.
- Kælið kökuna í 10-15 mínútur í forminu, hvolfið henni síðan á grind eða bakka og kælið aðeins áfram áður en hún er sett á disk.
- Ís eða rjómi með þessari klikkar ekki.
Hafið það huggulegt í hauströkkrinu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli