Hluti af fjölskyldunni fór með góðu fólki í Þórsmörk í brakandi blíðu á dögunum. Á leið okkar þangað fórum við smá útúrdúr og áðum í grænni lautu við Tumastaði í Fljótshlíð og nutum veðurblíðunnar og náttúrunnar. Í nestiskörfunni var dásamlegt döðlubrauð eftir uppskrift sem ég fékk frá mömmu fyrir langa löngu og heimsins bestu skonsur sem ættaðar eru frá góðri vinkonu. Þetta eru margreyndar og skotheldar uppskriftir og hægt að breyta þeim í hollustuátt með spelti, heilhveiti og hrásykri. Áleggið er ekki flókið á svona bakkelsi, smjör og kannski ostur er fullkomið!
- Ingibjörg.
Skonsur
7 1/2 dl hveiti
2 1/2 dl sykur
3 tsk lyftiduft
7 1/2 dl mjólk
2 eggjarauður
- Hrærið öllu saman.
2 eggjahvítur, stífþeyttar og blandaðar varlega saman við með sleikju.
- Bakið á pönnukökupönnu við frekar vægan hita og snúið þegar yfirborðið er orðið nokkuð þurrt. Gott er að setja örlítið smjör eða olíu á pönnuna nokkrum sinnum á meðan á bakstri stendur.
Döðlubrauð
1/2 lítri vatn
50 g smjör
250 g steinlausar döðlur
- Hitið allt saman í potti og stappið dölurnar í vökvanum, t.d. með kartöflupressu.
500 g hveiti
300 g sykur
2 tsk matarsódi
1 tsk lyftiduft
2 egg
1/2 tsk vanillusykur
- Hrærið öllu saman ásamt döðluvökvanum.
- Setjið í 2 - 3 vel smurð brauðform, hafið formin fyllt að 2/3 hluta.
- Bakið við 175°C í u.þ.b. klukkustund og stingið prjóni í til að athuga hvort brauðið er fullbakað.
Eigið góðar og ljúfar stundir!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli