sunnudagur, 2. júní 2013

Ítalskar kjötbollur


Kjötbollur geta að mínu mati verið hvort sem er hversdags eða helgarmatur og eru bara nokkuð vinsælar hér á þessu heimili. Hér er notast við gamlan og góðan grunn af partýbollum sem er poppaður upp með kryddi og parmesanosti.
Fyrirtaks sunnudagsmáltíð.
- Ingibjörg.

Kjötbollur

500 g nautahakk
75 g mulið ritzkex
2 msk lauksúpuduft
1 egg
3 msk rifinn parmesanostur
3 tsk oregano eða ítölsk kryddblanda
1/2 tsk svartur pipar

Blandið öllu saman í skál og hrærið saman þar til þetta er orðið að samfelldu deigi.
Mótið litlar bollur og raðið í eldfast mót.
Bakið í ofni við 180°C í 10-15 mínútur.

Sósa

1 laukur, smátt saxaður
2-3 hvítlauksrif, pressuð
1/2 rauð paprika smátt skorin
8 ferski tómatar, skornir í bita
1 tsk oregano
1 tsk grænmetiskraftur
1 tsk nautakraftur
1 tsk ítölsk hvítlauksblanda (Pottagaldrar)
salt og pipar eftir smekk
2 litlar dósir tómatmauk
1 tsk hlynsýróp

Mýkið lauk og papriku í olíu á vel heitri pönnu í smá stund.
Bætið tómötum út í og látið malla á meðan kryddið er sett út í.
Bætið tómatmaukinu saman við ásamt hlýnsýrópinu, hrærið vel saman og leyfið þessu að malla undir loki í 10 mínútur.

Setjið steiktu kjötbollurnar út í sósuna og leyfið þessu að malla saman við vægan hita
í nokkrar mínútur.

Berið fram með pasta, grænu salati og rifnum parmesanosti.

Verði ykkur að góðu!



Engin ummæli:

Skrifa ummæli