Hér á bæ varð laugardagurinn að snúðadeiginum mikla. Sóley og Helena vinkona hennar hófust handa við baksturinn og framreiddu gómsæta ostasnúða með smá pizzuívafi. Ég ákvað að fara í snúðakökugerð þar sem snúðarnir eru settir í form með vanillukremi. Mér finnst skemmtilegt að fást við gerbakstur, hann tekur smá tíma og gott að gera stórar uppskriftir og frysta. Hvort sem það eru bollur, snúðar, horn eða eitthvað annað þá þarf ekki annað en að hita smá stund í ofninum og bakkelsið verður eins og nýbakað.
- Ingibjörg.Grunndeig - hægt að nota í allskonar snúða, horn og bollur
10 dl hveiti
1/2 dl sykur
1/2 tsk salt
75 g smjör
3 3/4 dl volg mjólk
3 1/2 tsk þurrger
- Blandið þurrefnunum saman í skál.
- Myljið smjörið saman við þurrefnin með fingrunum eða látið hnoðarann í hrærivélinni vinna verkið.
- Velgið mjólkina og leysið gerið upp í henni.
- Hellið vökvanum saman við þurrefnin og hrærið saman.
- Hnoðið á borði þar til deigið er slétt og sprungulaust, bætið við hveiti eftir þörfum.
- Látið deigið lyfta sér á hlýjum stað í u.þ.b. 30 mínútur.
Ostasnúðar
- Fletjið deigið út í aflanga köku, u.þ.b 50x25 sentimetra.
- Blandið saman í skál 1/2 öskju af pizzasmurosti og 1/2 öskju af rjómaosti ásamt 1 tsk af góðu pizzakryddi.
- Smyrjið ostablöndunni á deigið og smyrjið smá pizzasósu þar ofan á. Setjið rifinn ost eftir smekk.
- Vefið upp í lengju og skerið í sneiðar, hægt er að fá u.þ.b 25 snúða.
- Látið snúðana lyfta sér á plötunni í 10-15 mínútur.
- Raðið á plötu og bakið við 180-190 °C í 15 mínútur.
Snúðakaka með vanillukremi
Vanillukrem
1 eggjarauða
2 msk hveiti
3 msk sykur
1 1/2 dl mjólk
1/2 tsk vanilludropar
salt á hnífsoddi
Setjið allt nema vanilludropana og saltið í pott og hitið þar til fer að þykkna. Hrærið í allan tímann með pískara. Takið af hitanum þegar kremið er orðið þykkt og bætið vanillu og salti saman við. Kælið.
- Takið 1/3 af deiginu, fletjið út og setjið í smurt form eða setjið bökunarpappír í botninn - ég notaði form sem er 40x25 sentimetrar.
- Jafnið vanillukreminu á deigið í mótinu.
- Fletjið hinn hlutann af deigunu út u.þ.b. 50x25 sentimetra, smyrjið með bræddu smjöri og stráið kanilsykri og söxuðu súkkulaði yfir.
- Vefjið upp í lengju og skerið í sneiðar.
- Raðið sneiðunum á kremið í mótinu.
- Látið kökuna lyfta sér í mótinu í 10-15 mínútur.
- Bakið við 180°C í u.þ.b. 30 mínútur.
Góðar stundir!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli