Það er gott að geta notað hráefni sem til er í ísskápnum í allskonar tilraunir þó ekki sé eiginleg uppskrift til að fara eftir. Margar uppskriftir eru þeim eiginleikum gæddar að hægt er að nota þær sem grunna sem hægt er að breyta, bæta og aðlaga, allt eftir efnum og aðstæðum. Eggjakakan hér er saman sett úr því sem til var í mínum ísskáp á þeirri stundu en hver og einn getur gert sína útfærslu með ýmsu grænmeti og öðru skemmtilegu. Ég læt svo fylgja uppskrift af múslíbitum sem eru fínir með kaffinu og kertaljósinu í haust.
- Ingibjörg.
Ofnbökuð eggjakaka
5 stór egg
1/2 lítil dós kotasæla
1 dl rifinn ostur
- Þeytið saman í smá stund.
nokkrar sneiðar beikon
smá biti púrrulaukur
brokkolí
salt og svartur pipar
- Skerið beikonið og grænmetið í bita og léttsteikið á pönnu í nokkrar mínútur. Byrjið á beikoninu og látið það brúnast aðeins og bætið síðan hinu við.
- Setjið beikonið og grænmetið í smurt eldfast mót og hellið eggjahrærunni yfir.
- Bakið við 180 - 190 °C í 25 - 30 mínútur.
- Berið fram með góðu brauði og salati.
200 g suðusúkkulaði, 56%
4 msk agavesíróp
3 msk kókosolía
- Bræðið saman í potti við vægan hita.
4 - 5 dl múslí
- Hrærið saman við súkkulaðiblönduna, setjið í form og sléttið úr blöndunni, gott er að setja bökunarpappír í botninn.
- Frystið í klukkutíma.
- Skerið í bita.
Það er gott að geyma bitana í frysti í góðu íláti og næla sér í eftir hendinni.
Góðar stundir í hauströkkrinu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli