laugardagur, 15. júní 2013

Ofnbakaður lax með sætu salsa

Nú er sumarið vonandi komið og ég fann hjá mér þörf fyrir að "hanna" eitthvað litríkt á diskinn. Bleiki fiskurinn er alltaf vinnsæll hjá mínu fólki og að þessu sinni gerði ég litríkt salsa og kalda sósu með honum.
-Ingibjörg

Kryddlögur á 1 laxaflak, u.þ.b. 700-800 g (fyrir fjóra)

2 msk olía
2 msk Sweet chili sósa
2 msk soja sósa

Penslið flakið og látið liggja í 1-2 klukkustundir fyrir matreiðslu.
Stráið söxuðum pecanhnetum og örlitlu maldon- eða himalayasalti yfir fiskinn rétt áður en hann fer í ofninn.
Bakið við 190-200 °C í 12-15 mínútir, fer samt eftir þykkt.

Að sjálsögðu er ekki verra að grilla fiskinn :)

Sætt salsa

1/2 mangó
1/2 rauð paprika
biti af ferskum ananas
1/4 rauðlaukur
nokkrir stilkar af graslauk
safi úr 1/2 lime
örítið salt og pipar

Saxið allt mjög smátt eða setjið í matvinnsluvél í örlitla stund. Geymið í kæli í 1/2-1 klukkustund.

Köld sósa

1 dós sýrður rjómi
1-2 hvítlauksrif, pressuð
1 msk hunang
fersk basilíka og graslaukur eftir smekk

Hrærið öllu saman og geymið í kæli í smá stund.

Berið fram með ofnbökuðum eða grilluðum kartöflum og góðu salati.

Njótið sumarsins!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli