sunnudagur, 29. september 2013

Snúðadagur

Hér á bæ varð laugardagurinn að snúðadeiginum mikla.  Sóley og Helena vinkona hennar hófust handa við baksturinn og framreiddu gómsæta ostasnúða með smá pizzuívafi. Ég ákvað að fara í snúðakökugerð þar sem snúðarnir eru settir í form með vanillukremi. Mér finnst skemmtilegt að fást við gerbakstur, hann tekur smá tíma og gott að gera stórar uppskriftir og frysta. Hvort sem það eru bollur, snúðar, horn eða eitthvað annað þá þarf ekki annað en að hita smá stund í ofninum og bakkelsið verður eins og nýbakað.
- Ingibjörg.

Grunndeig - hægt að nota í allskonar snúða, horn og bollur

10 dl hveiti
1/2 dl sykur
1/2  tsk salt
75 g smjör
3 3/4 dl volg mjólk
3 1/2 tsk þurrger

  1. Blandið þurrefnunum saman í skál.
  2. Myljið smjörið saman við þurrefnin með fingrunum eða látið hnoðarann í hrærivélinni vinna verkið.
  3. Velgið mjólkina og leysið gerið upp í henni.
  4. Hellið vökvanum saman við þurrefnin og hrærið saman.
  5. Hnoðið á borði þar til deigið er slétt og sprungulaust, bætið við hveiti eftir þörfum.
  6. Látið deigið lyfta sér á hlýjum stað í u.þ.b. 30 mínútur.



Ostasnúðar

  1. Fletjið deigið út í aflanga köku, u.þ.b 50x25 sentimetra.
  2. Blandið saman í skál 1/2 öskju af pizzasmurosti og 1/2 öskju af rjómaosti ásamt 1 tsk af góðu pizzakryddi.
  3. Smyrjið ostablöndunni á deigið og smyrjið smá pizzasósu þar ofan á. Setjið rifinn ost eftir smekk.
  4. Vefið upp í lengju og skerið í sneiðar, hægt er að fá u.þ.b 25 snúða.
  5. Látið snúðana lyfta sér á plötunni í 10-15 mínútur.
  6. Raðið á plötu og bakið við 180-190 °C í 15 mínútur.

Snúðakaka með vanillukremi

Vanillukrem

1 eggjarauða
2 msk hveiti
3 msk sykur
1 1/2 dl mjólk
1/2 tsk vanilludropar
salt á hnífsoddi

Setjið allt nema vanilludropana og saltið í pott og hitið þar til fer að þykkna. Hrærið í allan tímann með pískara. Takið af hitanum þegar kremið er orðið þykkt og bætið vanillu og salti saman við. Kælið.

  1. Takið 1/3 af deiginu, fletjið út og setjið í smurt form eða setjið bökunarpappír í botninn - ég notaði form sem er 40x25 sentimetrar.
  2. Jafnið vanillukreminu á deigið í mótinu.
  3. Fletjið hinn hlutann af deigunu út u.þ.b. 50x25 sentimetra, smyrjið með bræddu smjöri og stráið kanilsykri og söxuðu súkkulaði yfir.
  4. Vefjið upp í lengju og skerið í sneiðar.
  5. Raðið sneiðunum á kremið í mótinu.
  6. Látið kökuna lyfta sér í mótinu í 10-15 mínútur.
  7. Bakið við 180°C í u.þ.b. 30 mínútur.


Góðar stundir!

laugardagur, 7. september 2013

Vanillukaka með hindberjasultu

Þessi varð til við tilraunamennsku á laugardagsmorgni. Stundum hellist yfir mig að gera eitthvað til að eiga með kaffinu, svona ef einhver skyldi nú detta inn :) Viti menn! Ég fékk góða vinkonu óvænt í kaffi og hún gaf tilrauninni ágætiseinkunn sem og heimilisfólkið. Alveg fínasta kaka á vindasömum laugardegi.
 - Ingibjörg.


Kökudeigið:
160 g mjúkt smjör
2 dl sykur
3 egg
2 1/2 dl spelt
eða hveiti
2 tsk lyftiduft
örlítið salt

  • Þeytið smjör og sykur vel saman.
  • Bætið eggjum saman við, einu í einu og hrærið vel á milli.
  • Hrærið þurrefnunum saman við.


Vanillukrem:
2 msk hveiti
2 msk sykur
2 dl mjólk
1 eggjarauða
1 1/2 tsk vanillusykur
örlítið salt

  • Setjið allt nema vanillusykur og salt í pott, látið suðu koma upp og hrærið stöðugt í með sósuþeytara.  Þegar blandan þykknar er potturinn tekinn af hellunni og vanillu og salti bætt í. Kælið.


  • Setjið helminginn af kökudeiginu í smurt kökuform (ég notaði gamaldags 26 cm form með sveif í botninum, mjög gott að losa kökur úr þannig formi :) )
  • Smyrjið hindberjasultu (eða sultu/ávöxtum að eigin vali) á deigið, dreifið vanillukreminu jafnt yfir sultuna og að lokum restinni af kökudeiginu.
  • Bakið í u.þ.b 30 mínútur við 180-190°C.


  • Kælið kökuna í 10-15 mínútur í forminu, hvolfið henni síðan á grind eða bakka og kælið aðeins áfram áður en hún er sett á disk.
  • Ís eða rjómi með þessari klikkar ekki. 

Hafið það huggulegt í hauströkkrinu.

sunnudagur, 1. september 2013

Ávaxtasalat með vanillusósu

Mig langar að deila með ykkur uppskrift sem er í miklu uppáhaldi hjá mér og vinkonum mínum. 
Við búum þetta oft til þegar við erum saman og notum ýmsar tegundir af ávöxtum. Í þessa uppskrift er hægt að nota hvaða ávexti sem er og vanillusósan sem borin er með gerir þetta að himneskum eftirrétti.
- Sóley


Vanillusósa

2 1/2 dl. rjómi

2 eggjarauður
2 msk sykur
2 tsk vanilludropar/vanillusykur


Aðferð:

  1. Léttþeytið rjómann og geymið til hliðar.
  2. Setjið eggjarauður, sykur og vanilludropa/vanillusykur í aðra skál og þeytið saman í nokkrar mínútur.
  3. Blandið eggjahrærunni varlega saman við rjómann.
  4. Beriið fram með ávaxtasalati t.d. epli, bananar, vínber og jarðarber.

Njótið!