laugardagur, 27. júlí 2013

Skonsur og döðlubrauð í ferðalagið

Hluti af fjölskyldunni fór með góðu fólki í Þórsmörk í brakandi blíðu á dögunum. Á leið okkar þangað fórum við smá útúrdúr og áðum í grænni lautu við Tumastaði í Fljótshlíð og nutum veðurblíðunnar og náttúrunnar. Í nestiskörfunni var dásamlegt döðlubrauð eftir uppskrift sem ég fékk frá mömmu fyrir langa löngu og heimsins bestu skonsur sem ættaðar eru frá góðri vinkonu. Þetta eru margreyndar og skotheldar uppskriftir og hægt að breyta þeim í hollustuátt með spelti, heilhveiti og hrásykri. Áleggið er ekki flókið á svona bakkelsi, smjör og kannski ostur er fullkomið!
 - Ingibjörg.


Skonsur

7 1/2 dl hveiti
2 1/2 dl sykur
3 tsk lyftiduft
7 1/2 dl mjólk
2 eggjarauður

  • Hrærið öllu saman.

2 eggjahvítur, stífþeyttar og blandaðar varlega saman við með sleikju.

  • Bakið á pönnukökupönnu við frekar vægan hita og snúið þegar yfirborðið er orðið nokkuð þurrt. Gott er að setja örlítið smjör eða olíu á pönnuna nokkrum sinnum á meðan á bakstri stendur. 



Döðlubrauð

1/2 lítri vatn
50 g smjör
250 g steinlausar döðlur

  • Hitið allt saman í potti og stappið dölurnar í vökvanum, t.d. með kartöflupressu.

500 g hveiti
300 g sykur
2 tsk matarsódi
1 tsk lyftiduft
2 egg
1/2 tsk vanillusykur

  • Hrærið öllu saman ásamt döðluvökvanum.
  • Setjið í 2 - 3 vel smurð brauðform, hafið formin fyllt að 2/3 hluta.
  • Bakið við 175°C í u.þ.b. klukkustund og stingið prjóni í til að athuga hvort brauðið er fullbakað.


 Eigið góðar og ljúfar stundir!



sunnudagur, 7. júlí 2013

Skötuselur á planka! Dásemdin ein!

Ekki alls fyrir löngu sá ég grillþátt í sjónvarpinu þar sem grillað
var á planka. Þetta kom vel út í þættinum, aðferðin dásömuð af þeim sem kynntu plankann góða og mér fannst þetta bráðmerkilegt. Ég ákvað að þetta yrði prófað hér. Fjárfest var í viðnum og góðum vinum boðið í tilraunamálsverð. Skemmst er frá að segja að allt saman stóðst væntingar. Fiskurinn var einstaklega safaríkur og bæði við og gestirnir voru himinlifandi með matinn. Hér á eftir er smá lýsing á því hvernig ég útbjó fiskinn á plankann en að sjálfsögðu má nota hvaða hráefni sem er og prófa sig áfram. Okkur fannst þetta skemmtileg tilbreyting í grillmenninguna.
- Ingibjörg.-



Plattinn góði er látinn liggja í bleyti í a.m.k klukkutíma áður en hráefnið er settur á hann og svo fer hann strax á grillið. Grillið þarf að forhita.

Beikonvafinn skötuselur.

Ég skipti fiskinum í sex steikur og penslaði með olíu. Kryddið í þetta sinn var sítrónupipar og Best á fiskinn og lét ég þetta liggja óáreitt í klukkutíma. Beikoninu er vafið utan um fiskinn þannig að það hylji hann nokkurn vegin. Svo er þessu bara raðað að plankann og hann settur á grillið sem er í 150°C. Tíminn í þessu tilfelli var 23 mínútur.

Meðlætið að þessu sinni : 

 Ofnbakaðir kartöfluhelmingar, penslaðir með olíu og kryddaðir með himalayjasalti og rósmarín, bakaðir við 190 °C í 30-40 mínútur, eða þar til þær eru gullinbrúnar.
Salat úr Lambhagasalati, mangó og gúrku.
Sósan var nokkuð hefðbundin rjómasveppasósa, steiktir sveppir, rjómi eða matreiðslurjómi og krydduð með salti og pipar og smökkuð til með andakrafti og hunangi.





Ég hvet ykkur til að prófa svona planka, það er alltaf gaman að gera tilraunir!